Bimba

Friday, October 06, 2006

Nú hefur hversdagsleikinn aftur haldið innreið sína. Ég er byrjuð að vinna og var afskaplega gott að koma aftur á Landakot þar sem ég á marga góða vinnufélaga/vini sem tóku svo hlýlega á móti mér. Það var og er mikils virði. Ég ætla að sinna 50% stöðu. Mun vinna 4 daga í viku, 5 tíma á dag.
Ég byrjaði í gær og var bara nokkuð hress en aftur á móti ekki eins góðu formi í dag en þetta þarf nú líka að venjast. Ég er að vinna á deild þar sem ég hef ekki unnið áður og mér líst vel á starfsfólkið og sjúklingana. Einar GYLFI byrjaði líka að vinna eftir sitt veikindaleyfi. Hann byrjaði á þriðjudaginn.

Þetta verður stuttt og laggott í dag.
En ég má til að segjafrá því að þegar við vorum búin að gera upprisuhátíðina upp var afgangs 157.000 kr og við l´letum það renna til Parkinsonsamtakanna og það hefur verið greitt inná reikning þeirra.
Ég er búin að fá mjög jákvæð viðbrögð á hátíðina fólk talar um veislu aldarinnar og annað í þeim dúr. Skemmtikraftarnir fá mikið hrós og veitingarnar og þakka ég ykkur öllum hjartanlega fyrir ykkar framlag kæru skemmtikraftar og elsku Léttsveit takk fyrir veitingarnar fínu.

Sunday, October 01, 2006

Mamma

Það á að jarðsetja hana mömmu mína í dag. Síðastliðin vika hefur að mestu snúist um það. Það er svo margt sem þarf að huga að. Ég ætlaði að byrja að vinna í dag en geri það auðvitað ekki.
Dauði mömmu hefur valdið mér bæði sorg og gleði. Sorgin er þarna en gleðin eða feginleikinn yfir að hún sé nú laus frá þjáningum sínum er þarna líka. Þessar tilfininngar eru þarna báðar. Ég hef varla fellt tár yfir dauða mömmu. SIgríður Margrét dóttir mín sagðist hafa fundist sorglegra að heimsækja hana og sjá hana líða og þjást en að heyra um andlát hennar og það er mikið til í því. Samt finn ég svo mikið til í hjartanu en get samt ekki grátið.
Ég var raunar búin að kveðja mömmu mína fyrir löngu þ.e. þá mömmu sem var. Sterku gáfuðu fallegu konuna sem var svo félagslynd og vinamörg. Hún gat allt nema flautað og saumað á saumvél. Hún var svo klár talaði reiprennandi dönsku, ensku og þýsku- las meira að segja með stúdentsefnum fyrir próf. Hún var alltaf svo fín í tauinu, hafði saumakonu sem saumaði á hana fötin. Ég var ósköp leið yfir því þegar ég var yngri að enginn sagði að ég væri lík henni. Það var alltaf sagt að ég væri öll í föðurættina..... Og í þá daga fannst mér það ekki alveg nógu gott.
Pabbi var sjómaður svo hún var við stjórn á heimilinu og þar var alltaf margt um manninn og gestkvæmt. Alltaf nógur matur ef fólk kom og svo má ekki gleyma fínu veislunum þegar dekkað var upp með sparistellinu og borin á borð rjómalöguð blómkálssúpa og ´lærisneiðar í raspi, smásteik eða e-ð þaðan af betra. Hún var svo félagslynd og átti vini á öllum aldri. Hún bjó að þessu eftir a ð hún veiktist þá voru margir sem héldu tryggð við hana og heimsóttu hana.
Td. vinnufélagar úr Ísl. heimilisiðnaði, Kvenfél. Hrönn, saumaklúbbnum, ferðaafélagar úr ýmsum ferðum utan lands og innan auk ættingja og ýmissa vina. VIð fjölskyldan færum þeim sem sýnduð henni tryggð og vináttu í veikindum hennar bestu þakkir. Sérstaklega vil ég þakka Andrési og Kiddý, Fríðu og Jóni, Adda og Lilju og Böggí, Dúdú og 'ottari en hún er nú sjálf orðin veik og komin á stofnun, Gerði Hjörleifs og co og Gunnu EInars og Hrannarkonum .
Elsku mamma mín er nú farin og eftir sitjum við börnin hennar og fjölskyldur okkar og minnumst hennar og þökkum fyrir að hafa fengið að vera samvistum við þessa góðu merku konu .